top of page
Search

Í kæligeiranum í tæpa hálfa öld


„Auðvitað hefur eitt og annað breyst í kæligeiranum á þessum tíma. Hér á árum áður, þegar við vorum að vinna í ammoníakrörunum, notuðum við logsuðu en núna er rafsuðan mest ráðandi, fyrst og fremst TIG-suðan. Gasið er raunar ennþá allsráðandi í koparnum. Allar stýringar hafa auðvitað líka tekið miklum breytingum eftir að tölvutæknin kom til og þá má heldur ekki gleyma því hversu miklu auðveldara er í dag að nálgast allar upplýsingar, ef á þarf að halda. Með því að fara á netið í símanum er unnt að finna svör við flestum spurningum. En grunnhugmyndafræðin í kælitækninni er ennþá hin sama og stendur fyrir sínu, segir Benedikt Ásmundsson, sem hefur starfað í kæligeiranum á fimmta tug ára. Hjá Kælismiðjunni Frosti hefur hann starfað frá 2006 en hætti störfum á þessu ári.


Á átjánda ári, árið 1972, hóf Benedikt nám í vélvirkjun í Iðnskólanum á Akureyri. Árið 1976, að námi loknu, bauðst honum starf í kælideild Vélsmiðjunnar Odda á Akureyri en þar voru fyrir Otto Tulinius og Steindór Stefánsson. Benedikt hafði raunar unnið á Odda á námssamningnum og þekkti því ágætlega til þar. Allar götur síðan hefur Benedikt unnið í kæligeiranum; við smíðar, uppsetningu kælibúnaðar, viðgerðir og þjónustu. Starfsferillinn í þessum geira er því vel á fimmta tug ára.


Á þessum tíma var Vélsmiðjan Oddi eina fyrirtæki bæjarins í kæliþjónustu og starfssvæðið var Norðausturland - frá Ólafsfirði og austur á Vopnafjörð. Benedikt minnist þess að á þessum árum hafi m.a. verið stór verkefni í smíði og uppsetningu á kælibúnaði í saltfiskvinnslur víða á starfssvæðinu.


Kæliverk hf. var sett á stofn 1. apríl 1982 og voru eigendur fyrirtækisins Benedikt, Elín H. Gísladóttir, Otto Tulinius, Agnes Tulinius Svavarsdóttir og Steindór Stefánsson.


Kælismiðjan Frost festi kaup á Kæliverki árið 2006 og tveir af eigendum fyrirtækisins hófu þá störf hjá Frosti, Benedikt og Steindór Stefánsson. Benedikt hætti störfum hjá fyrirtækinu á þessu ári, sem fyrr segir, að loknum löngum og farsælum starfsferli.


Hjá Frosti segist Benedikt hafa haldið áfram þar sem frá var horfið, í stórum dráttum hafi hann unnið áfram að svipuðum verkefnum þar og hjá Kæliverki; smíðum, uppsetningu á kælikerfum, viðhaldi og breytingum


En hver skyldi hafa verið ástæðan fyrir því að Benedikt ákvað fyrir fimmtíu árum að læra vélvirkjun? Ástæðan er einföld, segir hann; mikill áhugi á vélum. „Ég er fæddur og alinn upp í sveit og ætli dráttarvélarnar hafi ekki leitt mig inn á þessa braut,“ segir Benedikt Ásmundsson.

122 views
bottom of page