top of page
Search

Umhverfismálin áberandi á kælitækniráðstefnu í Osló

Dagana 11. og 12. apríl sl. sat Sigurður J. Bergsson, tæknistjóri Frosts, kælitækniráðstefnu í Osló sem norska kælitæknifélagið – Norsk Kjöleteknisk Forening – stóð fyrir. Frummælendur á ráðstefnunni voru frá Norðurlöndunum, Þýskalandi og Bretlandi. Sigurður segir að m.a. hafi umhverfismálin verið sem rauður þráður í umræðunni á ráðstefnunni og auknar kröfur um notkun náttúrulegra kælimiðla í stað gervimiðla.

Á Norðurlöndunum öllum eru kælitæknisambönd eða -félög, sem eru einskonar samráðsvettvangur þeirra sem starfa í kæliiðnaðinum í hverju landi. Fyrir margt löngu, áður en internetið tók að hasla sér völl fyrir alvöru, voru jafnan haldnar samnorrænar kælitækniráðstefnur á fjögurra ára fresti en tilkoma netsins gerði það m.a. að verkum að þessi reglubundnu samskipti lögðust meira eða minna af. Sigurður segir að mönnum hafi orðið það æ betur ljóst hversu mikilvægt það væri, til viðbótar við netfundi og allar þær upplýsingar sem er að finna á netinu, að koma saman til að bera saman bækurnar og miðla reynslu og upplýsingum. Norska kælitæknifélagið heldur árlega ráðstefnu fyrir sína félagsmenn og ákvað í ár að boða fulltrúa norrænu félaganna til ráðstefnunnar, sem fór fram á Scandic hótelinu við Gardemoen flugvöllinn í Osló, og þar var Sigurður fulltrúi Kælitæknifélags Íslands. Ráðstefnuna sóttu um 400 manns. Í pallborðsumræðum kynnti Sigurður Kælitæknifélagið, ræddi stöðu og þróun kælitækninnar á Íslandi og þær áskoranir sem þessi atvinnugrein stendur frammi fyrir hér á landi. 

Það kom skýrt fram að það sama brennur á öllum í þessari atvinnugrein á Norðurlöndunum, þ.e. strangari umhverfiskröfur.  Í síðasta mánuði samþykkti Evrópuþingið þriðju útgáfu af reglugerð um takmörkun á notkun gervimiðla – svokölluðum F-gösum og að sölubann á þessum kælimiðlum hafi að fullu tekið gildi árið 2050. Fram kom á ráðstefnunni að menn veltu því alvarlega fyrir sér hvort Norðurlöndin ættu að ríða á vaðið, banna þessa gervikælimiðla og taka alfarið upp náttúrulega kælimiðla með m.a. ammoníaki, kolsýru og vatni. Að þessu leyti stöndum við á Íslandi ágætlega að vígi því hér er töluvert af ammoníak- og kolsýrukerfum.Hins vegar stöndum við Íslendingar kollegum okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, talsvert að baki í menntunarmálum fyrir kæliinaðinn. Hér hefur aldrei verið boðið upp á heildstætt og sérhæft nám í kælitækni, sem við teljum brýna nauðsyn á. Það er vissulega komið lítillega inn á hana í Véltækniskólanum, sem er hluti af Tækniskólanum, og í vélstjórnarnámi í öðrum verkmenntaskólanum. Í háskólunum tveimur, HÍ og HR, er kennd véltæknifræði og vélaverkfræði en þar er lítið komið inn á kælitæknina.  Við þurfum að laga þessi menntunarmál og ég bind vonir við þá vinnu sem Samtök iðnaðarins og Málmur í samvinnu við Véltækniskólann hafa í sameiningu sett af stað í þessum efnum og hefur að markmiði að setja upp námsbraut í kælivirkjun/kælitækni. Til þess þarf að vinna nýja námsskrá og þess er vænst að unnt verði að fá aðstoð og leiðbeiningar við uppsetningu hennar frá verknámsskóla í Danmörku, þar sem löng hefð er fyrir kennslu í þessri iðngrein. Ef vel gengur með þessa vinnu verður vonandi mögulegt að bjóða upp á slíkt nám í Véltækniskólanum á vorönn 2025, segir Sigurður.

Hann segir að ráðstefnan í Osló hafi verið mjög gagnleg og ánægjulegt hafi verið að hitta þá sem standa framarlega í kælitækniiðnaðinum í Skandinavíu. Staðreyndin sé sú að heimur kælitækninnar sé ekki mjög stór og því hafi hann verið ágætlega kunnugur fast að þrjátíu manns á ráðstefnunni.

Hér að neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru á ráðstefnunni. Á efstu myndinni eru fulltrúar kælitæknisambandanna/-félaganna á Norðurlöndum. Frá vinstri: Pauli Tarna frá Finnlandi, Robert Thell frá Svíþjóð, Sigurður J. Bergsson, Armin Hafner frá Noregi og loks Danirnir Kristian Fredslund og Sören Bülow.







15 views
bottom of page