top of page
Search

Starfsmenn sækja skyndihjálparnámskeið

Allir starfsmenn hjá Frost, sem eru á sjöunda tug, sitja skyndihjálparnámskeið þessa dagana, bæði á Akureyri og í Garðabæ. Starfsmannahópnum er skipt í nokkra hópa og hefur hluti hans nú þegar lokið sínum námskeiðum og síðar í þessum mánuði sitja aðrir starfsmenn sömu námskeið.

Að sögn Rúnars Sigursteinssonar, fjármála- og starfsmannastjóra hjá Frost, eru leiðbeinendur á námskeiðunum frá Rauða krossinum, bæði sunnan og norðan heiða, og fara þeir í alla grunnþætti í skyndihjálp, m.a. hvernig skuli bregðast við ef slys verða eða skyndileg veikindi koma upp.

Rúnar segir afar mikilvægt að fara reglulega yfir þessi mál, þetta sé þekking sem komi öllum vel á vinnustað og daglegu lífi utan vinnutíma. Hann segir að Frost vilji með þessum námskeiðum undirstrika mikilvægi öryggismála og að starfsmenn séu meðvitaðir og kunni að bregðast við óvæntum aðstæðum.

Rúnar segir Rauða krossinn standa vel og faglega að þessum skyndihjálparnámskeiðum. Bæði sé um að ræða veflæg námskeið og verkleg. Fyrst þurfi starfsmenn að sitja veflæga hlutann og tileinka sér vel það sem þar kemur fram, síðan taki sá verklegi við og þar sé farið í eitt og annað sem komi fram á vefnámskeiðunum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í liðinni viku á skyndihjálparnámskeiðum í Frost.













189 views
bottom of page