Í liðinni viku voru rafmagns- og stýringanámskeið fyrir þjónustumenn Frosts í Garðabæ og á Akureyri þar sem var farið yfir fjölmörg atriði varðandi stýringar, snjalllausnir og það allra nýjasta á þessu sviði. Eiríkur Sigurðsson, sem veitir rafmagnsdeild Frosts forstöðu, segir að námskeiðin séu mikilvægur þáttur í því að miðla til þjónustumanna öllum nýjustu upplýsingum um stýringarnar, virkni þeirra o.fl. Auk Eiríks var Sævar Pálsson, sem hefur áratuga reynslu í kæligeiranum, leiðbeinandi á námskeiðunum.
Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri Frosts, segir að fyrirtækið kappkosti að þjónustumenn þess þekki í þaula þann búnað sem Frost er að nota, það sé lykilatriði til að tryggja viðskiptavinum góða þjónustu.
„Við hönnum, smíðum og setjum upp stýringar fyrir okkar kælikerfi, bæði stór og smá. Meðal annars vinnum við með stýrivélar og nemabúnað. Þessi búnaður er orðinn meira og minna nettengdur, í það minnsta í stórum kælikerfum, og því unnt að fylgjast vel með honum allan sólarhringinn, en einnig er um að ræða tilbúnar stýringar sem þarf að stilla. Framþróunin í stýringum og þó einkanlega nemabúnaði er alveg gríðarleg og því fylgjumst við vel með öllu því sem er að gerast á þessu sviði út í heimi. Það nýjasta í þessu eru svokallaðir smartnemar. Sá tæknibúnaður sem við notum mest sækjum við m.a. til Skotlands, Þýskalands og Danmerkur,“ segir Eiríkur.
Að sögn Guðmundar notar Frost iðntölvubúnað frá RDM. „Okkar rafhönnuðir vinna náið með tæknimönnum frá RDM um bestun á forritun sem tekur stöðugum breytingum með auknum kröfum um hagræðingu og nýtingu. Með RDM vaktar Frost og viðheldur öllum sínum kerfum auk þess að sinna sérfræðiþjónustu við okkar viðskiptavini, bæði með fjarþjónustu yfir netið og heimsóknum.“
Eiríkur segir að námskeiðin í síðustu viku hafi verið haldin í því skyni að auka þekkingu tæknimanna Frosts á þeim stýringum og tæknibúnaði sem sé verið að hanna og setja upp. Vítt og breitt hafi verið farið yfir virkni búnaðarins, hvernig beri að stilla hann o.fl. Yfirgripsmikil og almenn þekking starfsmanna Frosts á þessum búnaði sé mikilvægur þáttur í að þjónusta viðskiptavini af kostgæfni.
Myndirnar hér að neðan eru frá námskeiðunum í síðustu viku í Garðabæ og á Akureyri.
Comments