top of page
Search

Guðmundur H. Hannesson nýr framkvæmdastjóri Frost

Þann 1. desember tók Guðmundur H. Hannesson við starfi framkvæmdastjóra Kælismiðjunnar Frost af Gunnari Larsen sem verið hefur framkvæmdastjóri síðustu 15 ár. Guðmundur er einn af stofnendum Kælismiðjunnar Frost árið 1993 en hann hefur frá árinu 2001 stýrt sölu- og tæknideild fyrirtækisins og vann þar áður í uppsetningu búnaðar og þjónustu.
Hluthafar Kælismiðjunnar Frost eru 19 talsins en hópur starfsmanna á meirihluta í félaginu. Aðrir hluthafar eru fjárfestingafélögin Kaldbakur og KEA. Starfsmenn eru rúmlega 60 talsins. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri en starfsstöðvar eru í Garðabæ, á Selfossi og í Kolding í Danmörku.


Mikil tækifæri framundan „Kælismiðjan Frost hefur vaxið gríðarlega allt frá stofnun og ég sé mikil tækifæri á okkar þjónustusviðum á komandi árum. Okkar stærsti markaður er og verður í sjávarútvegi og hryggjarstykkið er heimamarkaðurinn hér á Íslandi, uppsetning og viðhald frysti- og kælikerfa í vinnslum og skipum. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mestur á erlendum mörkuðum í sölu og uppsetningu frystikerfa, auk þess sem tæknileg ráðgjöf og hönnun kerfa er stöðugt vaxandi þjónustuþáttur. Sú þróun mun halda áfram,“ segir Guðmundur. Stærstur hluti erlendra verkefna Kælismiðjunnar Frost síðustu ár hefur verið á sjávarútvegssviðinu á norðlægum slóðum, þ.e. í Norður-Ameríku, Kanada, Noregi, Færeyjum og stór verkefni eru um þessar mundir í Rússlandi, bæði í landvinnslum og nýjum frystiskipum.


Góður tímapunktur til breytinga Gunnar Larsen, fráfarandi framkvæmdastjóri, mun starfa í fyrirtækinu næstu mánuði og ljúka ýmsum verkefnum en segist ánægður með árin að baki.„Ég var fyrir nokkru búinn að ákveða að láta staðar numið eftir 15 ár í starfi og þetta er góður tímapunktur. Fyrirtækið hefur tekið miklum breytingum síðan ég kom hér til starfa á sínum tíma. Veltan hefur nær tífaldast, mikil sókn verið á erlenda markaði, veruleg fjölgun starfsmanna og þannig má áfram telja. Þetta hafa verið mjög skemmtileg ár með góðu samstarfsfólki,“ segir Gunnar.

25 views

Comments


bottom of page