Á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu 2. nóvember nk. verður Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Frosts, umsjónarmaður málstofu um þróun í kælitækni þar sem verður farið yfir þróun og stöðu frysti- og kæliiðnaðarins og skyggnst inn í framtíðina í kælingu og frystingu matvæla. Meðal fyrirlesara verða Sigurður J. Bergsson tæknistjóri Frosts sem fjallar um segul- og hljóðbylgjufrystingu og Kristján A. Grétarsson verkefnisstjóri Frosts í Kolding í Danmörku ræðir um frystingu með stýrðu hita- og rakastigi.
„Frost hefur í gegnum árin verið að þróa stýringu á sjálfvirka lárétta plötufrysta og við höfum horft til þess hvernig við gætum aukið og jafnað afköst þeirra. Í fyrirtækinu er til staðar sérþekking á því hvernig unnt er að stýra rakastigi, m.a. í frystigeymslum og blásturfrystum. Með samspili þessarar sjálfvirku stýringar á plötufrystunum og stýringu á rakastiginu í umhverfinu náum við mun jafnari og meiri afköstum en við höfum áður séð pr. frystitæki. Með öðrum orðum hámarkar þessi tækni nýtni þeirrar fjárfestingar sem svona plötufrystir er, það næst einsleitari vara út úr frystiferlinu og það eru jafnari afköst frá degi til dags og viku til viku. Til þessa hefur slíkt ekki verið mögulegt. Við höfum lengi verið að prófa þessa tækni og niðurstöður úr þessum prófunum hafa farið langt fram úr okkar væntingum. Innan Kælismiðjunnar Frosts er áratuga þekking á plötufrystum á allflestum kælimiðlum sem hafa verið notaðir til þessa og það hafa komið fram mismunandi annmarkar við mismunandi kælimiðla. Til dæmis eru miklir kostir með tilkomu CO2 sem kælimiðils en honum fylgja líka nýjar áskoranir. Við höfum gert ýmsar rannsóknir og prófanir á þessu og höfum fengið alþjóðlegt einkaleyfi sem snýr að því að jafna afköst innan hvers plötufrystis. Að öllu samanlögðu tel ég að Frost hafi tekið mörg skref í rétta átt á undanförnum árum og þegar þau eru dregin saman með stýringu á rakastiginu í umhverfinu erum við að ná afköstum í frystingunni sem ekki hafa sést áður. Stóri ávinningurinn af þessu fyrir sjávarútveginn verður að á t.d. uppsjávarvertíð verða afköst og nýting frystitækjanna jafnari og betri sem skilar auknum verðmætum,“ segir Kristján A. Grétarsson.
Comments