top of page
Search

Frost setti upp viðamikið kælikerfi í vörugeymslu Icelandair Cargo á Keflavíkurflugvelli

Núna í desember hefur Icelandair Cargo verið að taka í notkun viðbyggingu við vörugeymslu sína að Fálkavöllum 13 á Keflavíkurflugvelli. Kælismiðjan Frost annaðist hönnun og uppsetningu kælikerfis í vörugeymslunni en það er 146 kW á kælihliðinni og 21 kW á frystihliðinni.

Framkvæmdir við stækkun á vörugeymslunni hófust í marslok á þessu ári en vegna aukinna umsvifa var húsið komið að þolmörkum með stærð og afkastagetu. Eldra hús er rúmlega 6.000 fermetrar en með viðbyggingunni er vörugeymslan nú tæplega 10.000 fermetrar að grunnfleti.

Hönnun og uppsetning kælikerfis í vörugeymsluna var boðin út og fékk Frost verkið á þeim grunni að setja upp kolsýrukerfi (CO2-kerfi). „Þegar verksamningar lágu fyrir í júní hófst hönnunarvinnan og jafnframt fórum við í að velja vélbúnað og tæki í kerfið. Allt þurfti þetta að ganga hratt fyrir sig enda lá fyrir að verktíminn væri stuttur. Það þurfti því mikla útsjónarsemi við að velja hentugan búnað í kælikerfið sem birgjar gætu afhent með skömmum fyrirvara. Þrátt fyrir að þessi hluti verka sé almennt töluvert flóknari en var fyrir kóvidfaraldurinn og stríðið í Úkraínu gekk okkur ágætlega að ná þessu heim og saman. Eftir að hönnun og tæknivinnunni var lokið hófst uppsetning á kerfinu þann 18. september sl. og það má segja að verkinu hafi lokið núna í lok nóvember. Prufukeyrsla á kerfinu hefur gengið vel og ég tel að vel hafi til tekist,“ segir Jóhann R. Guðbergsson, verkefnastjóri Frosts í Garðabæ.

Af sautján kæliklefum í vörugeymslunni eru fjórtán gámaklefar eða „Container-klefar, hver þeirra er rúmlega 81 rúmmetri að stærð og rúmar tvo flugvélagáma. Einn klefi er venjulegur frystiklefi, einn er kæliklefi og einn svokallaður hitaklefi, sem getur „keyrt á 12°C upp í 25°C. Hver þessara þriggja klefa er rúmlega 200 rúmmetrar að stærð.

„Að mínu mati hefur hefur þetta gengið mjög vel. Verktíminn var skammur og því þurfti verkið að vinnast hratt og örugglega og það gekk ágætlega upp. Til að byrja með unnum við tveir frá Frosti við uppsetninguna en bróðurpart verktímans vorum við fjórir. Við gangsettum kerfið þann 27. nóvember sl. og ég held að sé óhætt að segja að þetta komi mjög vel út, segir Kristinn Björgvinsson, staðarstjóri Frosts á Keflavíkurflugvelli.

Kristinn segir verkefnið hafa verið sérstakt að því leyti að verktíminn var skammur og staðsetning verksins á Keflavíkurflugvelli hafi markað því sérstöðu. Vegna þess að hús Icelandair Cargo er inn á vallarsvæðinu hafi starfsmenn Frosts þurft að fara í gegnum vopnaleit þegar farið hafi verið inn á svæðið – á ensku er talað um að fara á milli Airside og Landside svæðanna. Á meðan á framkvæmdum stóð var annar hluti byggingarinnar á Airside en hinn á Landside. Þetta flækti málin eilítið. Kristinn segir að til þess að fara ekki oft á milli svæða, og þarf með að eyða ekki of miklum tíma á degi hverjum í vopnaleit, hafi þurft að ígrunda vel og skipuleggja að morgni dags hvaða verkfæri og búnað starfsmenn þurftu að taka með sér inn í húsið til þess að vinna þann daginn. „Þetta er eitt af skemmtilegri verkefnum sem ég hef komið að og það er mjög ánægjulegt að sjá að kerfið virkar eins og lagt var upp með,segir Kristinn Björgvinsson.






74 views
bottom of page