Frost setti upp fyrsta stóra kælikerfið með kolsýru sem kælimiðil í Costco í Kauptúni í Garðabæ árið 2015 og síðan hafa verið sett um mörg kolsýrukerfi, sérstaklega í verslunum en einnig í frystigeymslu Haga í Korngörðum og Fasteignafélagsins Korputorgs í Korputorgi. Þá hafa nýlega verið sett upp kolsýrukerfi í Skautahöllinni á Akureyri og hjá kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska/Kjarnafæði, svo nokkuð sé nefnt, auk fjölda minni kolsýrukerfa. Nú eru nokkur slík kerfi í hönnunarfasa og bíða uppsetningar. En eftir sem áður er ammoníak notað í stórum iðnaðarkerfum og á því telur Sigurður J. Bergsson, tæknistjóri Frosts, að verði ekki miklar breytingar á allra næstu árum.
„Ástæðan fyrir því að kolsýrukerfin hafa fengið aukið vægi í litlum og meðalstórum kælikerfum er sú að þau koma í stað kerfa með gömlum kælimiðlum en í því sambandi er rétt að rifja upp að árið 2007 var sett bann við notkun kælikerfa með ósoneyðandi kælimiðlum eins og „freoni“. Þá komu fram aðrir kælimiðlar eins og vetnisflúorkolefni sem höfðu ekki klór í sér. Menn horfðu til þess á þeim tíma að þarna væri kominn kælimiðill til framtíðar en fljótlega fóru að renna tvær grímur á menn því þessi vetnisflúorkolefni hafa háan umhverfisstuðul, þ.e.a.s. kolefnisjafngildi. (Kolsýra hefur grunngildið einn, þ.e. að eitt kíló af kolsýru út í andrúmsloftið hefur jafngildið einn og ammóníak stuðulinn núll). Sumir kælimiðlanna sem voru notaðir eftir 2007 höfðu kolefnisjafngildi allt upp í 2-3 þúsund. Við fylgjum reglum Evrópusambandsins í þessum efnum og það er einfaldlega bannað að setja á markað ný kerfi með þessum vetnisflúorkolefnum nema þau hafi kolefnisjafngildi undir ákveðnu marki. Með öðrum orðum má nota þessa kælimiðla ef um er að ræða mjög lítil kerfi. Markmiðið með þessum takmörkunum er að upp úr árunum 2030 til 2035 verði notkun á þessum miðlum að miklu leyti hætt sem þýðir í raun að einungis verða leyfð náttúrleg efni eins og kolsýra, ammóníak og eldfimir miðlar. Á síðustu árum – og ekki síst vegna orkukreppunnar – hafa menn í auknum mæli horft til orkunýtingarinnar í hönnun kælikerfa, þ.e.a.s. hversu mikið rafmagn kerfin nota. Við höfum heyrt hversu mikið rafmagn hefur hækkað í verði víða erlendis á síðustu misserum og því hefur orkunýtingarþátturinn aukið vægi við hönnun kælikerfa. Ég var nýverið á fyrirlestri um þessi mál í Danmöru og þar eru orkumálin mjög stór og vaxandi þáttur. Reynt er með öllum mögulegum ráðum að ná fram betri orkunýtingu og sparnaði þar. Ef við horfum til kolsýrunnar kemur í ljós að hún býður upp á mjög áhugaverða varmaendurnýtingu,“ segir Sigurður.
Hann segist vera nokkuð viss um að kolsýran sé komin til að vera sem kælimiðill en mikilvægt sé að vanda til verka við notkun hennar. Kolsýran vinni við mjög háan þrýsting og því þurfi kerfin að vera sterk og þola þann þrýsting. Það segir sína sögu að hér á landi eru ammoníakkerfin hönnuð fyrir allt að 23 bara þrýsting en kolsýrukerfin eru hönnuð fyrir allt að 120-150 bör. Á þessu er því verulegur munur. Sigurður nefnir einnig að ef kolsýran leki út í miklu magni ryðji hún súrefninu í burtu – með öðrum orðum er hún þyngri en andrúmsloftið. Gerist þetta getur kolsýran haft þau áhrif á fólk sem andar henni að sér að það missir meðvitund – sambærilegt við það sem hefur gerst í lokuðum rýmum eins og tönkum og kjöllurum. Það er því eitt og annað sem ber að varast við notkun kolsýrunnar en það breytir því ekki, segir Sigurður, að hún er sá kælimiðill sem er og hefur verið í auknum mæli að hasla sér völl.
Sigurður segir að Frost fylgist mjög vel með framþróun í kælimiðlum út í heimi og þeirri þekkingu sé mikilvægt að miðla til starfsmanna fyrirtækisins. Fyrr í vetur var haldið námskeið um kolsýrukerfi og fleira fyrir sölu- og þjónustumenn Frosts í Garðabæ og í vikunni var sambærilegt námskeið fyrir þjónustumenn Frosts á Akureyri. Meðfylgjandi mynd var tekin á námskeiðinu á Akureyri.
Þessi námskeið segir Sigurður vera til marks um metnað Frosts í endurmenntun starfsmanna fyrirtækisins og að miðla til þeirra öllum nýjustu upplýsingum um þá kælimiðla og þann búnað sem unnið er með á hverjum tíma. Tilgangur þessara námskeiða bæði sunnan og norðan heiða sé m.a. að kynna fyrir þjónustumönnum Frosts eiginleika kolsýrunnar sem kælimiðils og ýmislegt varðandi öryggismálin – í því skyni að tryggja viðskiptavinum fyrirtækisins góða og örugga þjónustu.
Comments