top of page
Search

Byltingarkenndar breytingar í kælitækni frá stofnun Frosts

Jón Gunnlaugur Sigurjónsson er einn af stofnendum Kælismiðjunnar Frosts og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá fyrsta degi. Síðustu fjögur ár hefur enskt starfsheiti hans hjá Frosti verið After Sales Manager, sem vísar til eftirfylgni verka sem fyrirtækið hefur lokið við. Jón er í góðum samskiptum við fulltrúa verkkaupa eftir að verkum lýkur og kemur málum í farveg ef eitthvað þarf að bæta við eða lagfæra.


Jón er vélfræðingur að mennt. Hann tók fyrri hluta námsins í Verkmenntaskólanum á Akureyri og síðasta námsárið í Reykjavík. Náminu lauk hann með sveinsprófi árið 1992. Faðir Jóns, Sigurjón H. Jónsson, hefur lengi starfað sem smiður á Akureyri og það gerði einnig föðurafi hans og alnafni, Jón Gunnlaugur Sigurjónsson. Það má því segja að smíðarnar séu í genunum en löngunin til þess að vinna með vélar var sterkari hjá Jóni og vélfræðin varð því ofan á.


Áður hafði Jón stundað sjóinn frá Grímsey um fimm ára skeið, þar af bjó hann í tvö ár í eynni. Hann rifjar upp að sjómennskan hafi kveikt í sér að fara í vélstjórnarnám með áframhaldandi sjómennsku í huga. Á námsárunum var Jón m.a. vélstjóri á bátum og skipum frá Litla-Árskógssandi, Þorlákshöfn, Hvammstanga og Akureyri – bæði á skipum ÚA og Samherja.


„Ég lauk við smiðjusamninginn hjá Hleragerðinni hf., sem tengdist útgerðarfélaginu Ögurvík í Reykjavík, og lauk síðan sveinsprófi. Þá fluttum við aftur norður til Akureyrar og ég hóf störf í kælideild Odda, sem þá var komin í Slippinn. Þar starfaði ég í hálft ár en var síðan einn af stofnendum Kælismiðjunnar Frosts í árslok 1993. Það má því segja að tilviljun ein hafi ráðið því að ég datt inn í kæligeirann fyrir tæpum þrjátíu árum og í honum hef ég verið síðan. Í núverandi starfi, í eftirfylgni verka, hef ég verið frá 2018 en áður var ég í uppsetningu kælikerfa, viðhaldi þeirra og þjónustu, bæði hér á landi og erlendis. Ég hef alltaf haft ánægju af því að vinna í þessum geira. Starfið er fjölbreytt enda erum við að vinna fyrir ótal mörg fyrirtæki og starfsemi þeirra er ólík og fjölbreytt. Að sama skapi eru kælikerfin sem við erum að setja upp og þjónusta ólík að stærð og umfangi, hvort sem það er í sjávarútvegi, verslun eða matvælaframleiðslu,“ segir Jón.


Í mörg ár, þegar Jón starfaði við uppsetningu og þjónustu kælikerfa, var hann mikið í burtu í fjölbreyttum verkefnum hér á landi og utan landsteinanna. Hann segir að oft hafi hann verið allt að þriðjung úr ári í verkefnum í útlöndum. Í núverandi starfi er Jón hins vegar ekki eins mikið á faraldsfæti og áður, úr málum er í flestum tilfellum hægt að greiða gegnum síma eða tölvu. Síðan kemur til kasta þjónustudeildarinnar.


Á tæpum þremur áratugum hefur auðvitað margt breyst í kæligeiranum, eins og öðru. „Fyrstu árin vorum við langmest í minni kerfum en þetta hefur vaxið gríðarlega að umfangi á síðustu árum. Kerfin hafa margfaldast að stærð, aðbúnaður starfsmannanna er allur annar og betri en var og breytingarnar á tækjabúnaði eru byltingarkenndar. Fyrir tæpum þrjátíu áratugum hefði maður ekki getað ímyndað sér að við ættum eftir að setja upp og þjónusta kerfi sem frysta um 1500 tonn á sólarhring! En þetta er hægt með þeirri miklu reynslu sem hefur byggst upp í fyrirtækinu og öflugu tengslaneti við birgja,“ segir Jón.


Undanfarin ár hefur Jón búið með fjölskyldu sinni í Vaðlaheiðinni og er því innan sveitarfélagamarka Svalbarðsstrandarhrepps. Í byrjun árs 2019 gekk hann til liðs við Björgunarsveitina Týr á Svalbarðsströnd og er einn átta virkra félaga í henni. Auk þeirra eru aðrir sjö á hliðarlínunni. Björgunarsveitarmenn hittast reglulega til þess að fara yfir málin og huga að viðhaldi og endurbótum á tækjabúnaði. Sveitin hefur yfir að ráða einum bíl og tveimur sexhjólum og sl. sumar voru fest kaup á snjótroðara, sem hafði verið notaður í ferðir á Snæfellsjökul með ferðafólk. Jón segir að fyrir liggi að fara í uppgerð á snjótroðaranum. Eitt kallar á annað, snjótroðarinn kallar á stærra húsnæði fyrir sveitina og lausn á því er í sjónmáli. Þá er þess að geta að sveitin er með tvo leitarhunda, annan í A-flokki og hinn í B-flokki.


Eins og nærri má geta er kostnaðarsamt að halda úti björgunarsveit. Jón segir að stærsti hluti tekna Björgunarsveitarinnar Týs komi eins og hjá öðrum sveitum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, með sölu á árlegum Björgunarkalli og áramótaflugeldunum. Einnig segir hann að önnur fjáröflun sé í gangi, t.d. hafi Týr nú í fyrsta skipti tekið að sér sem fjáröflunarverkefni að setja upp leiðiskrossa í kirkjugarðinum við Svalbarðskirkju.


Stuðningur Kælismiðjunnar Frosts við starf björgunarsveitanna fer ekki á milli mála þegar komið er inn á kaffistofu fyrirtækisins á Akureyri. Þar eru samankomnir björgunarsveitarkallar Landsbjargar síðustu ára. Frost hefur sýnt stuðning sinn við starf sveitanna í verki með kaupum á árlegum björgunarsveitarkalli, fyrst af Súlum á Akureyri og síðan, eftir að Jón gekk til liðs við Tý á Svalbarðsströnd, af Björgunarsveitinni Tý.



86 views
bottom of page