top of page
Search

Jákvætt og gott verkefni sem við viljum styðja við

Frost hefur styrkt Sjávarútvegsskóla unga fólksins frá árinu 2017. Við teljum þetta mjög jákvætt og gott verkefni sem ástæða er til að styðja við enda er mikilvægt að kynna fyrir unga fólkinu sjávarútveginn, þessa undirstöðuatvinnugrein okkar, á lifandi og skemmtilegan hátt. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel þetta verkefni hefur gengið og eflst og dafnað,segir Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, en fyrirtækið hefur verið einn fjögurra aðalstyrktaraðila Sjávarútvegsskólans undanfarin ár og tekið þátt í verkefninu sem gestafyrirlesarar inn í bekkina.


Á liðnu sumri var kennsla í Sjávarútvegsskóla unga fólksins í átta vikur – í júní og júlí. Kennt var á Dalvík, Grenivík, Akureyri og í Fjallabyggð og voru nemendur samtals 149. Sjávarútvegsskólinn var í samstarfi vinnuskólanna á þessum stöðum, Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Námið var í formi fyrirlestra, heimsókna á söfn, í fiskiskip og fyrirtæki og leikja og verklegra æfinga, s.s. skynmats á fiski og tilraunum.


Á Akureyri voru heimsóknir í fiskvinnslu ÚA, Fiskistofu og til Samherja, á Dalvík var kynning á hinu nýja fiskiðjuveri Samherja, einnig voru heimsóknir í Sæplast og til björgunarsveitarinnar, á Grenivík var harðfiskframleiðandinn Darri ehf. sóttur heim og í Fjallabyggð kynntu þátttakendur sér starfsemi björgunarsveitarinnar, Fiskmarkaðarins, Ramma, Síldarminjasafnsins, Ísfells og Betri vara.


Kennarar í sumar voru sjávarútvegsfræðingar og lífverkfræðingur frá Háskólanum á Akureyri, bæði útskrifaðir eða enn í námi: María Dís Ólafsdóttir, Lilja Gísladóttir, Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, Svandís Dóra Jónsdóttir, Katla Snorradóttir, Særún Anna Brynjarsdóttir og Þorvaldur Marteinn Jónsson. Auk þeirra voru nokkrir gestafyrirlesarar úr atvinnulífinu.


Sjávarútvegsskóli unga fólksins hóf starfsemi sína árið 2013 og var þá rekinn af Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Fljótlega var verkefnið útvíkkað og tók Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri við umsjón með skólanum. Undanfarin ár verið starfsemi skólans verið á Norðurlandi í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækin þar.


Sumarið 2020 var skólinn svo kenndur í fyrsta skipti í Reykjavík, á Sauðárkróki og í Vesturbyggð og á liðnu sumri bættist Ísafjörður við. Samtals sóttu 288 ungmenni Sjávarútvegsskólann sumarið 2022.


Fiskeldisskóli unga fólksins var í annað skipti kenndur í Vesturbyggð á liðnu sumri en fyrirkomulag hans er svipað og í Sjávarútvegsskóla unga fólksins og er hann liður í samstarfsverkefni Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands um nám í fiskeldi. Tíu nemendur voru í Fiskeldisskólanum sumarið 2022.






92 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page