
Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frost, hefur starfað í kæliiðnaðinum í 36 ár. Hann hefur víðtæka reynslu og þekkingu í þróun og breytingum í kæligeiranum.
„Það hefur orðið gríðarleg hugarfarsbreyting þegar kemur að gæðum og meðferð matvæla ásamt nýtingu orku og glatvarma,“ segir Guðmundur um breytingarnar í áranna rás.
Kælismiðjan Frost stofnuð í kjölfar gjaldþrots Slippstöðvarinnar
Guðmundur hóf störf og lærði vélvirkjun hjá Vélsmiðjunni Odda á Akureyri og starfaði í framhaldinu á kælideild Odda fram til 1993.
„Þegar Slippstöðin á Akureyri varð gjaldþrota 1993 var hún í eigu ríkisins og Akureyrarbæjar. Ríkið gerði kröfu um að við endurreisn Slippstöðvarinnar kæmi þriðji aðilinn inn. Kaupfélag Eyfirðinga sem átti og rak Vélsmiðjuna Odda var sá aðili,“ segir Guðmundur og bætir við að eftir sex mánuði hafi verið útséð um að starfsemi kælideildarinnar ætti heima í Slippstöðinni. Starfsmenn kælideildar Odda og starfsmenn úr kælifyrirtæki í Reykjavík ásamt Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans í Reykjavík stofnuðu í kjölfarið Kælismiðjuna Frost.
Yngsti stofnandinn vann sem starfsmaður á plani
„Ég var einn af stofnendum fyrirtækisins og sá yngsti aðeins 24 ára gamall. Ég tók ekki beinan þátt í rekstrinum, var starfsmaður á plani,“ segir Guðmundur sem tók fljótlega við staðarstjórnun á ýmsum verkefnum innanlands og utan, m.a. við byggingu Síldarvinnslunnar árið 1996, uppsetningu á frystikerfum í skipum og landvinnslum í erlendum skipasmíðastöðvum í Póllandi, Suður Ameríku, Afríku og víðar.
1. desember 2001 tók Guðmundur við sölu- og tæknideildinni og nákvæmlega 19 árum síðar, 1. desember 2020 tók hann við framkvæmdastjórastöðu Kælismiðjunnar Frost. Að sögn Guðmundar er nafnið Kælismiðjan Frost á bak við kennitölu félagsins. Frost sé hins vegar vörumerki félagsins og að daglega gangi fyrirtækið undir því nafni.
Stöðug endurmenntun nauðsynleg
„Starf framkvæmdastjóra er fjölbreytt og ég bý að því að hafa unnið í fyrirtækinu í 31 ár. Starfsemi Frost er í sífelldri þróun, verkefnin fjölbreytt og þekkinguna þarf stöðugt að uppfæra,“ segir Guðmundur sem er í stöðugri endurmenntun á ýmsum námskeiðum og kynningum á nýjungum í kæliiðnaðinum.
„Ég vakna enn jafn spenntur á hverjum morgni að fara í vinnuna eins og ég gerði 24 ára.“
„Ég var einn af stofnendum fyrirtækisins og sá yngsti aðeins 24 ára gamall. Ég tók ekki beinan þátt í rekstrinum, var starfsmaður á plani“
Svolítill karlpungabransi
Guðmundur segir að um 70 karlar starfi í fyrirtækinu og eigi starfsmenn um 60% hlut í fyrirtækinu auk tveggja annarra hluthafa. „Það vinnur engin kona hjá Frost. Ekki af því að við viljum það ekki, heldur er þetta svolítill karlpungabransi og lítið um að konur leiðist inn á okkar brautir og sérhæfi sig í greininni. Það hafa tvær stelpur verið nemar hjá okkur en þær fóru báðar í meira nám,“ segir Guðmundur og bætir við að kona hafi unnið á skrifstofunni fyrir 25 árum og nú sé ein kona í stjórn félagsins.
Starfsstöðvar Frost eru á fjórum stöðum Akureyri, Garðabæ, Selfossi og tækniþjónusta í Kolding í Danmörku. Verkefni eru m.a. á Íslandi, Kína, Suður-Ameríku, Póllandi, Noregi, Danmörku og Færeyjum.
Frost vel skilgreint fyrirtæki
„Frost er vel skilgreint sem hönnunar, verktaka og þjónustufyrirtæki fyrir kæli og frystiiðnaðinn. Þar sem höfuðáherslan er lögð á ráðgjöf og hönnun og góða þjónustu í matvælaframleiðslu frá upphafi og þar til afurðin endar á disknum hjá neytendum,“ segir Guðmundur og ítrekar ríka kröfu um að tryggja bestu framleiðslu og geymsluskilyrði og gæði frá upphafi til enda. Guðmundur segir fyrirtækið alla tíð hafa fylgt framþróun í matvælaframleiðslu og það hafi verið nóg að gera frá stofnun þess. Verkefnastaðan geti verið sveiflukennd í takti við efnahagssveiflur.
Misvitrar ákvarðanir ráðamanna hafi mikil áhrif á stöðu fyrirtækja í landinu og það sé í raun mesta ógnin sem fyrirtæki standa frammi fyrir, sem og pólitískur órói.
Hugarfarsbreyting í orkumálum
Guðmundur segir að gríðarlegar breytingar hafi orðið í hugsunarhætti í framleiðslugeiranum gagnvart orkunýtingu og nýtingu á glatvarma.
„Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við viðskiptavini okkar til þess að finna leiðir til að nota vistvænni orkugjafa og hámarka nýtingu glatvarma eins og hægt er,“ segir Guðmundur og bendir á að fyrr í haust hafi Frost afhennt risastóra varmadælu til fiskeldisstöðvarinnar Laxey í Vestmannaeyjum sem hækkar sjávarhitastig í körunum hjá Laxey úr sjö til níu gráðum upp í stöðugar tólf gráður. Með því nái laxinn fimm kílóa kjörþyngd mun fyrr en ella. Ný varmadæla var sett upp við frystikerfi frystigeymslnanna hjá Síldarvinnslunni þar sem glatvarmi er nýttur til hitunar í verksmiðjum Síldarvinnslunnar.
Frá ísskápaviðgerðum til stærstu uppsjávarverksmiðju í heimi
Að sögn Guðmundar eru verkefni Frost allt frá því að gera við heimilisísskápa og í að setja upp stærstu uppsjávarverksmiðju í heimi.
„Frost var fengið til að sjá um hönnun og uppsetningu á stærstu uppsjávarverksmiðju í heiminum í Færeyjum 2018 og 2019. Verksmiðjan hefur getu til að frysta 1300 tonn af makríl á sólarhring en grunnhönnun verksmiðjunnar gerir ráð fyrir að hægt sé að frysta 1800 tonn með því einu að bæta við vélbúnaði í verksmiðjuna.“
True color frysting
Eitt af þróunarverkefnum Frost er þróa frystingu sem skilar bestu gæðum í laxaframleiðslu og jafnframt fallegum lit á fiskinn þegar hann er færður á diskinn.
„Þróun á kælingu á fiskafurðum hefur verið stór þáttur í starfi Frost og í þeirri þróun höfum við unnið með mörgum aðilum. Það skiptir máli hversu hratt hægt er að frysta laxinn. Með True color erum við búnir að þróa aðferð sem frystir laxinn á fimm til sex klukkustundum og kemur þannig í veg fyrir að rífa sellurnar í kjöti laxins og að safinn leki úr honum þegar hann er afþíddur,“ segir Guðmundur og nefnir að með þessari aðferð fáist fallega rauður lax í stað þess fölbleika sem oft er í boði í frystum matvöruverslana.
Mikil tækifæri til að draga úr magni kælimiðla
Guðmundur sér mikil tækifæri í kæligeiranum. Hann segir umverfis- og loftslagsmálin fái sífellt meiri athygli og í dag séu gerðar miklar kröfur til notenda að draga úr notkun kælimiðla sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Í dag sé lögð rík áhersla á að skipta öllum slíkum kerfum yfir á náttúrulega kælimiðla sem hafa engin skaðleg áhrif á umhverfi sitt.
„Í einu af nýjustu skipum íslenska flotans, Sigurbjörgu ÁR, hannaði Frost nýja lausn þar sem algjört lágmarksmagn náttúrulegs kælimiðils er notað í afmörkuðu rými skipsins sem tryggir til muna öryggi,“ segir Guðmundur stoltur af þeirri þróun sem Frost hefur staðið fyrir með því að lágmarka kælimiðlamagn og hámarka orkunýtingu.
Skortur á kælivirkjum er áskorun
Guðmundur segir það mikla áskorun að fá hæft starfsfólk með menntun í kælivirkjun.
„Það hefur verið unnið ötullega með yfirvöldum í 15-20 ár að bjóða sértæka menntun í kælitækni. Nú er verið að útbúa námsskrá og áætlað er að hefja kennslu í kælitækni að ári,“ segir Guðmundur sem vonar að upplausnin í pólitíkinni komi ekki í veg fyrir að námið hefjist.
Virkt samtal við viðskiptavini á Sjávarútvegsráðstefnunni
Guðmundur hefur sótt flestallar sjávarútvegsráðstefnurnar frá upphafi og segir að hún stuðli að virku samtali við viðskiptavini og fari yfir tækifæri og ógnir í sjávarútvegi sem að endurspegli þær áherslur sem þarf að leggja áherslur á í kæliiðnaðinum.
„Sjávarútvegsráðstefnan hjálpar okkur að beina sjónum okkar að því hvaða vörur við þurfum að þróa. Allt byrjar þetta með sölumanninum sem fer og finnur tækifæri hjá neytandanum. Hvað hann vantar, í hvaða stærð og gæðum. Það er nauðsynlegt að geta tekið virkan þátt í þróun tækja og tóla með viðskiptavinum, en til þess þarf traust á milli okkar og viðskiptavinanna.“
„Sjávarútvegsráðstefnan hjálpar okkur að beina sjónum okkar að því hvaða vörur við þurfum að þróa. Allt byrjar þetta með sölumanninum sem fer og finnur tækifæri hjá neytandanum. Hvað hann vantar, í hvaða stærð og gæðum“
Þróun allt frá nokkrum dögum í mánuði og ár
Guðmundur stýrði málstofu á Sjávarútvegssýningunni 2023 undir heitinu, Þróun í frystitækni. Þar fluttu framsögu tveir starfsmenn Frost, Sigurður J. Bergsson, sem fjallaði um segul-og hljóðbylgjufrystingu, og Kristján Arnór Grétarsson, sem fjallaði um Frystingu með stýrðu hita- og rakastigi.
„Þarna vorum við að kynna tvö af fjölmörgum þróunarverkefnum okkar. Þróun getur tekið mislangan tíma. Hún getur tekið frá nokkrum dögum eða vikum upp í mánuði og ár.“
Guðmundur segir að Sjávarútvegsráðstefnan 2024 undir yfirskriftinni, Stjórnun fiskveiða – svo miklu meira en kvóti, hafi staðið undir væntingum.
Frost tók þátt í ráðstefnunni í málstofu um „Tæknilega samkeppnishæfi Íslensk sjávarútvegs“ þar sem Frost gerði grein fyrir þróun kælimiðla og nauðsyn þess að horfa til nátturulegu kælimiðlana eins og CO2 og NH3. það sé alltaf jafn spennandi að sækja sýninguna heim og taka virkan þátt í samtalinu um framtíðarverkefni.
„Grunnurinn að góðu hjónabandi er gagnkvæmt traust og virðing“
Guðmundur segist hafa verið heppinn í lífinu. Hann hafi kynnst konunni sinni þegar hann var fimmtán ára og eigi hana enn.
„Við vorum svolítið að flýta okkur, við urðum foreldrar sextán ára gömul og svo bættust við tvö í viðbót. Öll börnin eru uppkomin og hafa gefið okkur átta barnabörn. Það er mikið ríkidæmi fyrir 55 ára gömul hjón. Öll fjölskyldan býr á Akureyri og það eru sextán manns við borðið í sunnudagsmatnum,“ segir Guðmundur og bætir við að grunnurinn að góðu hjónabandi sé góð kona, heilindi, heilbrigð samskipti og skilningur á ólíkum áhugamálum.
Of mörg áhugamál
„Ég spila innanhússfótbolta með fjölskyldunni og vinum tvisvar í viku. Hjóla mikið á Endurohjólinu mínu bæði á sumrin og veturna og á snjósleða á veturna bæði innanlands og utan með fjölskyldu og vinum,“ segir Guðmundur sem hefur það lífsmottó að gera betur á morgun en í gær og vera góður maður.
Grein skrifuð af Guðrúnu Erlingsdóttur
コメント