top of page
Search

Þúsundþjalasmiðurinn Þórður

Það er stóra spurningin hvaða titill passar best Þórði A. Ragnarssyni, sem starfar á verkstæði Kælismiðjunnar Frosts í Garðabæ. Í áranna fjöld hefur hann safnað svo ótal mörgu í reynslupokann og því er ekki fjarri sanni að kalla hann þúsundþjalasmið. Hann segir mikilvægt að hafa til að bera ákveðna þrjósku, gefast ekki upp og leita lausna. Það hafi hann haft að leiðarljósi í gegnum tíðina. Þórður hyggst setja amen á eftir efninu á farsælli starfsævi þegar hann fagnar sjötugsafmælinu síðar á árinu.


Þórður er fæddur og uppalinn á Siglufirði til tíu ára aldurs. Fjölskyldan flutti í Hafnarfjörð árið 1965 og þar hefur Þórður búið meira og minna síðan. Hnignun síldarbæjarins vegna hruns síldarstofnsins á sjöunda áratugnum hafði sitt að segja um þá ákvörðum foreldra Þórðar að flytja suður. Í tíu sumur, frá sex ára aldri, var hann í sveit yfir sumarmánuðina í Hjaltadalnum. Skólagangan var hefðbundin í barnaskólanum á Siglufirði og grunnskólagöngunni var lokið eftir að fjölskyldan flutti suður.


Rennismiður og vélfræðingur


Síðan lá leiðin í Flensborgarskólann í Hafnarfirði þar sem ég lauk gagnfræðaprófi. Að því loknu fór ég í nám í rennismíði í Vélsmiðjunni Kletti í Hafnarfirði. Faðir minn var líka rennismiður og fór einnig í Vélskólann. Á þessum tíma, fimmtán ára gamall unglingur, vissi ég lítið um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég hafði séð auglýst í blaði eftir nema í bifvélavirkjun og hringdi til þess að athuga málið. Þá kom í ljós að búið var að ráða í starfið og ef satt skal segja hef ég hrósað happi æ síðan að þetta starf hafi verið frátekið, eftir á að hyggja hefði ég ekki viljað rata í þær ógöngur að fara í bílaviðgerðir! Ég get þakkað pabba að ég fór í rennismíðina því einn góðan veðurdag kemur hann heim og tilkynnir mér að ég sé kominn á samning hjá Vélsmiðjunni Kletti. Hann hafði unnið þar og þekkti því ágætlega til, einnig vann hann um tíma á renniverkstæðinu í Bátalóni og sömuleiðis á Vélaverkstæði Jóhanns Ólafs við Reykavíkurveg. Þá starfaði hann hjá Rannsóknarráði við mælingar á borholum vegna Saltverksmiðju á Reykjanesi og síðustu 27 starfsárin var hann við eftirlit og viðhald á kæli- og frystitækjum hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.Ég lauk fjögurra ára námstíma í rennismíðinni hjá Kletti. Vann í smiðjunni 8-9 mánuði á ári en tók síðan bóklegu fögin í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Að þeim tíma loknum vildi ég fara inn á nýjar brautir og ákvað að fara í Vélskólann. Þangað gat ég farið beint í annað stigið vegna þess að ég hafði lokið sveinsréttindum í rennismíði. Vissulega sá ég á þessum tíma nokkra rómantík í því að geta starfað sem vélstjóri til sjós, hvort sem er á fiskiskipum eða jafnvel frögturum og sjá mig um leið um í heiminum.


Sumarið 1976, að loknum fyrsta vetrinum í Vélskólanum, fékk ég pláss á hvalbátnum Hval 9. Þetta sumar var mér hrein martröð og þessi erfiða reynsla af sjómennskunni gerði það að verkum að ég setti til hliðar öll áform um að leggja hana fyrir mig. Ekki þarf að orðlengja það að ég var um borð í Hval 9 í níutíu daga og jafn marga daga var ég sjóveikur og ældi eins og múkki! Eftir að ég síðan kláraði Vélskólann vildi ég aftur láta reyna á sjómennskuna og fékk vorið 1978 afleysingatúr á gömlu Bifröstinni, sem ég hygg að hafi verið fyrsta gámaflutningaskipið á Íslandi. Siglt var til Ameríku og túrarnir voru 22 sólarhringar. Þetta var endurtekið efni fá hvalvertíðinni, ég ældi í 21 sólarhring af 22! Stoppað var samtals í 24 tíma í Norfolk og Portsmouth og þá rétt bráði af mér. Eftir þessa reynslu sagði ég við sjálfan mig að nú væri komið gott af sjómennsku, nú yrði ég að finna mér eitthvert annað lífsviðurværi í landi,“ rifjar Þórður upp.


Seglskútuútgerðin


En maður skyldi aldrei segja aldrei. Þrátt fyrir sjóveikina og þessa erfiðu reynslu af sjómennsku hvarf sjómennskudraumur Þórðar aldrei að fullu, undir niðri blundaði löngun í að eignast skútu. Og málin æxluðust þannig að við annan mann festi Þórður kaup á seglskútu á Spáni árið 2019. Fóru þeir út til þess að ná í skútuna og með þeim sjóaður skipstjórnarmaður, Markús Pétursson, sem lengi hefur verið í eldlínunni í Siglingaklúbbnum Þyt í Hafnarfirði. Og viti menn, það var engu líkara en sjóveikin hefði elst af Þórði, eftir öll þessi ár fann hann ekki fyrir henni. Heimferðin á skútunni var um margt eftirminnileg og rataði í fréttir hér heima því þegar siglt var um Gíbraltarsund, um fjórar sjómílur vestur af Tarífa á Spáni, komu þeir að manni í björgunarvesti í sjónum sem var augljóslega í mikilli nauð og afar þrekaður. Þeir náðu manninum um borð í skútuna og létu síðan strandgæsluna á Spáni vita og innan klukkustundar var kominn bátur til þess að sækja manninn. Af örlögum hans heyrðu þeir ekki meir en Þórður telur margt benda til þess að upprunaland hans hafi verið Marokkó og hann hafi viljað freista þess að komast yfir til Spánar. Hefðu þeir félagar ekki séð hann þarna er nokkuð ljóst að hann hefði rekið út á Atlantshafið og þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.Heimferðin á skútunni gekk ekki áfallalaust. Bilun kom m.a. upp í seglbúnaði og því urðu nokkrar tafir. Í það heila tók heimferðin ríflega 40 sólarhringa.Skútuna áttu Þórður og meðeigandi hans í um þrjú ár en árið 2022 var henni siglt til Southampton í Englandi og hún sett á söluskrá þar. Það voru síðan bandarísk hjón sem keyptu skútuna á vordögum 2023. Þar með var punktur settur aftan við sjómennskukafla Þórðar.


Fjögur ár á Keflavíkurflugvelli


Þórður hafði unnið annað slagið í Vélsmiðju Hafnarfjarðar á meðan hann var í Vélskólanum og hann vann þar einnig um tíma eftir að sjómennskudraumarnir voru úr sögunni. Síðan lá leiðin upp á Keflavíkurflugvöll þar sem Þórður starfaði frá 1979 til 1984 við hlið föður síns í viðhaldi á kæli og frystitækjum fyrir varnarliðið, fyrst í afleysingum en síðan var hann fastráðinn. Þetta fólst í því að annast viðhald á t.d. ísskápum sem herinn útvegaði sínu fólki á Vellinum. Við vorum líka með á okkar snærum kælitæki og ísvélar í klúbbunum á Vellinum og það sama má segja um mötuneytið, sem var þekkt sem Messinn. 


Frá Skeiðsfossvirkjun og í kælibransann


Á árunum 1984-1986 var Þórður veðurathugunarmaður ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni á Hveravöllum fyrir Veðurstofu Íslands en að þeim tíma loknum lá leiðin til SJ Frosts í Kópavogi sem var mest í uppsetningu og viðhaldi kælikerfa. „Vorið 1989 bauðst mér síðan starf vélstjóra við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum. Fráfarandi stöðvarstjóri var þá að fara með fleirum í uppbyggingu á laxeldisfyrirtækinu Miklalaxi í Fljótum og staðan losnaði af þeim sökum. Þegar ég kem norður er virkjunin enn í eigu Siglufjarðarkaupstaðar en á því varð breyting snemma á tíunda áratugnum þegar RARIK kaupir virkjunina af bænum. Fyrir lá að það þurfti að fara í viðamiklar endurbætur á virkjuninni og það var einfaldlega of stór biti fyrir Siglufjörð. Árin í Fljótunum var mikill reynslubanki því ég kynntist ýmsu og lærði margt. Og mér líkaði þar vel enda góður staður fyrir veiðiáhugamann eins og mig, hvort sem er í stangveiði eða skotveiði.Í Skeiðsfossvirkjun var ég í átta ár en fór þá aftur suður.


Á árum mínum í Fljótum hafði SJ Frost sameinast Kælideild Odda á Akureyri og Kælismiðjan Frost varð til. Árið 1996 varð aftur sú breyting að fyrrum eigendur SJ Frosts fóru út úr fyrirtækinu og stofnuðu Frostmark og hjá því fyrirtæki fór ég að vinna þegar ég flyt aftur suður árið 1997. Þar var ég í tæplega tuttugu og eitt ár þar til Frostmark var sameinað Kælismiðjunni Frosti og frá árinu 2018 hef ég starfað hjá fyrirtækinu í starfsstöð þess í Garðabæ. Til að byrja með var ég í hinum og þessum verkefnum bæði inni á verkstæði og úti í bæ en þegar ég var kominn á aldur sagði ég við strákana að nú færi ég að hætta þessu. Á það var ekki hlustað og þá varpaði ég því fram að ég gæti lufsast eitthvað áfram ef ég fengi að vera bara inni á verkstæði. Við því var orðið og ég hef verið í tilfallandi verkefnum á verkstæðinu, að smíða, gera við minni kerfi og annað sem fellur til.


Ég nefndi nýverið við Guðmund framkvæmdastjóra Frosts að á meðan skrokkurinn væri í bærilega góðu lagi og heilsan væri góð vildi ég gjarnan eiga einhvern tíma fyrir sjálfan mig. Ég verð sjötugur 1. nóvember á þessu ári og hef verið að hugsa um að hætta í kringum afmælið. En svo er spurning hvort maður verði ekki til áramóta til þess að ná jólafríinu, því það er svolítið hagstætt í ár, öfugt við sem það hefur verið undanfarin ár!


Góður starfsandi


Þórður segir það eiga við um þetta starf eins og öll önnur störf að dagarnir séu misjafnir, vissulega hafi hann stundum gripið leiði en síðan hafi hann fokið út í veður og vind og næsti dagur tekið við. Ætli komi þá ekki til sögunnar þessi þverhnípta þrjóska norðursins, að gefast ekki upp. Þegar armæðan í þessum bransa var hvað mest hér á árum áður hætti ég oft á dag suma dagana! En það breyttist margt þegar ég fór að vinna hjá Kælismiðjunni Frosti. Ég get sagt með sanni að starfsandinn hjá fyrirtækinu er frábærlega góður og það er ekki síst fyrir hann sem ég er ennþá í þessu,“ segir Þórður A. Ragnarsson.










208 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page